A great review of our Björk liqueur (in Icelandic only)

written by Sindri

Hér á Matviss kunnum við að meta vandaða innlenda framleiðslu og tökum því ávalt fagnandi þegar nýtt innlent áfengi lítur dagsins ljós. Að okkar mati er hreinlega leitun að íslenskara áfengi en því sem unnið er úr birki. Þannig er nýjasta vinkona okkar, hún Björk, íslenskari en sumarnætursólin og sæt eins og íslenska kvenfólkið; áhugaverður íslenskur líkjör sem vert er að líta betur á.

Björk er framleidd af Foss Distillery, ungu íslensku fyrirtæki sem notar alíslenskt birki við framleiðslu áfengra drykkja. Að baki Björk, og bróður hennar, honum Birki, liggja bæði vísindi og list. Mikil rannsóknarvinna fór í að finna hvernig nýta mætti birki með þessum hætti, sem skilaði sér í nýung á markaði, það er birkisíróp og þau brögð sem unnin eru úr birkinu. Listin er þó ekki langt undan því vínþjónninn og, leyfi ég mér að segja, listamaðurinn á sviði áfengra drykkja, Ólafur Örn Ólafsson setur sitt mark á drykkina. Að sögn vildi Ólafur að drykkirnir fönguðu íslenska sumarnótt hvar birkiilmurinn gýs upp í dögginni. Auk þess hefur hann, ásamt fleirum, búið til úrval kokteila er innihalda systkinin Björk og Birki og líta þeir hreint glæsilega út.

Björk 2

Í glasi er Björk skærrafgullin. Í nefi er sætur skógarilmur sem og viður og birkianganin er greinileg. Ilmurinn er nokkuð þungur og minnir á gróðurangan í íslenskri náttúru í rigningu. Í munni finnur maður ávaxtasætu, við og greinilegt birki. Sætan er þung og ákveðin, ögn væmin. Þarna eru líka kryddaðir tónar og bragðupplifunin minnir pínu á bandarískan sarsaparilla eða rótarbjór, fyrir þá sem það þekkja. Að endingu eru þarna tannín eða álíka sem skapa þurrk og smá beiskju sem gerir bragðupplifunina meiri og dýpri. Eftirbragðið er stutt og heitt.

Björk 3

Ég verð að taka hatt minn ofan fyrir Ólafi Erni vínþjóni og teyminu hjá Foss Distillery því þessi hugmynd að skapa drykk sem vekti hughrif um íslenska sumarnótt í náttúrunni gengur fullkomlega upp. Það eru nákvæmlega þær myndir sem koma í huga mér þegar ég smakka Björk. Þarna eru birkið í forgrunni og þungur sætur ilmur sem er eins og einhver hafi tappað andrúmslofti íslenskra rigningarsumarsnótta á flösku. Magnað! Burt séð frá hughrifum er drykkurinn sjálfur ljómandi góður.  Að vissu leiti minnir bragðið á sæt eftirréttarvín, af einhverjum ástæðum kom Disznoko Tokaji í huga mér, en biturleikinn að endingu drepur það. Kryddunin og beiskjan í lokin færa Björk nær gini, en þó er alls ekki hægt að segja að hún beinlínis líkist því. Hún stendur ein og einstök í heiminum, líkt og íslenska náttúran. Hvort sem þú ert áhugamaður um íslenska náttúru eða góð vín þá er Björk drykkur sem þú þarft að smakka.

Þótt Björk sé skemmtileg eins og sér, t.d. fyrir eða eftir mat, þá kann hún sig best í kokteilum. Svona má njóta hennar út í ystu æsar:

Björk Tonic

Þennan ofureinfalda drykk bjó Ólafur Örn vínþjónn til. Ég prófaði hann um daginn á Slippbarnum og var mjög hrifinn.

  • 5cl. Björk
  • Vandað tonic til að fylla glasið.
  • Ísmolar

Fyllið tromlu eða hefðbundið G&T glas með ísmolum og hellið Björk yfir. Fyllið glasið með tonic og skreytið með sítrusberki.

Björk tonic

Mynd fengin af heimasíðu Foss Distillery.

Freyðandi Björk

Þessi er alveg tilvalinn fordrykkur. Er brúðkaup, stórafmæli eða flott veisla í plönunum? Þá er þetta drykkurinn til að byrja kvöldið.

  • 3cl. Björk
  • Þurrt freyðivín til að fylla glasið

Hellið Björk í hefðbundið freyðivínsglas. Haldið skeið á hvolfi yfir opinu á glasinu og hellið freyðivíninu yfir skeiðina og ofan í glasið. Þetta býr til lagskiptingu í glasinu sem lætur drykkinn líta út eins og milljón dollara. Þessu má þó auðvitað sleppa og hella freyðivíninu beint ofan í glasið.

Freyðandi Björk